Er Össur Skarphéðinsson Markó Póló vorra tíma?

Lýsingar Markó Póló á auðævum kínversku keisaranna vöktu að vonum mikla athygli á sínum tíma.  Síðan þá hafa ekki borist jafn góð tíðindi úr austurvegi fyrr en nú um daginn að Össur Skarphéðinsson fetaði í fótspor Markó Póló og bloggaði ferðalýsingar frá Indónesíu og Filippseyjum.  Að sögn Össurar liggja ráðamenn þar um slóðir á gríðarlegum orku- og auðlindaforða sem þeir vilja að við Íslendingar virkjum í skiptum fyrir gull mikið.

Að mati Össurar skiptir engu máli þótt fyrirtækið sem átti að ferja gullið heim, það er REI, hafi orðið uppvíst að spillingu svo mikilli að tíðindum sætir, enda fór hann með REI í þeysireið um Asíu og fékk fyrirmenni á Austurlöndum til fylgilags við bandítana, jafnvel eftir að bolabrögð þeirra urðu opinber.

Össur lætur allt tal um spillingu sem vind um eyru þjóta, enda eru að hans sögn milljarðar í húfi sem REI var boðið í austurvegi að hans tilstuðlan.

Ekki er öll vitleysan eins. 


mbl.is Össur: Valdarán sexmenninganna skaðaði OR gríðarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða gegn ógnarstjórninni í Íran

Það er ánægjulegt að sjá hversu þétt vestrænar þjóðir standa saman andspænis ógnarstjórn klerkanna í Íran.  Nú hafa George W. Bush Bandaríkjaforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari sammælst um að herða enn frekar refsiaðgerðir gegn Íransstjórn.

Tilefnið er ærið.  Í fyrsta lagi er tími til kominn að þessi fornfræga menningarþjóð Íranar losni undan hæl klerkanna.  Þjóðin hefur nú um langt skeið mátt þola hrikaleg mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda.  Fólki þar er mismunað á grundvelli trúarbragða, sem dæmi hefur fólk í Bahai söfnuðinum þar sætt ofsóknum.  Eins hafa mótmælendur úr röðum stúdenta verið handteknir og pyntaðir til að ná fram játningum.  Íranar sem berjast, til dæmis fyrir réttindum kvenna, sæta þar oft þungum refsingum.  Þá tíðkast þar enn að grýta fólk opinberlega til dauða, jafnvel fyrir framhjáhald.

Nánar má lesa um grimmileg mannréttindabrot írönsku klerkastjórnarinnar á heimasíðu Human Rights Watch  http://hrw.org/doc/?t=mideast&c=iran&document_limit=0,20

Þar með eru grimmdarverk klerkastjórnarinnar þó ekki upptalin.  Hún hefur haft afskipti af bardögum í Írak og veitt skæruliðum og hryðjuverkamönnum sem berjast þar gegn almenningi í Írak og her Bandaríkjamanna stuðning.

Írönsk stjórnvöld hafa lengi veitt hryðjuverkamönnum Hizbollah og Hamas dyggan stuðning.  Þessi samtök hafa farið með ofbeldi á hendur almennum borgurum í Ísrael um áraraðir, og meðal annars myrt fjölda fólks í ítrekuðum sjálfsmorðsárásum, til dæmis á strætóvagna og samkomustaði.

Þá hefur Ahmadinejad, forseti Írans, margoft lýst andúð sinni á Ísrael og sagt að það eigi að eyða landinu.  Slíkar yfirlýsingar gagnvart fullvalda ríki verða vart túlkaðar nema sem stríðsyfirlýsingar.

Síðast en ekki síst halda Íranar áfram að auðga úran þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í tvígang ályktað að þessari starfsemi skuli hætt að viðlögðum refsiaðgerðum.  Það eru auðvitað ekki aðeins vesturlönd sem standa að ályktununum heldur einnig Rússar og Kínverjar, og allt alþjóðasamfélagið.


mbl.is Áfram unnið að því að ná friðsamlegri lausn á deilunni við Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri-grænir og utanríkismál

Auk góðrar forystugreinar 24 stunda um stefnu vinstri-grænna í utanríkismálum í dag, hafa kjarngóðar greiningar á stefnunni birst víða í netheimum undanfarið, til dæmis þessi:

"Hvað stefnu vinstri-grænna í utanríkismálum og stríðinu gegn hryðjuverkum varðar er rétt að ítreka eftirfarandi. Hún markast af sjálfbirgni fólks sem telur að það sé síðustu móíkanarnir í baráttu fyrir friði og mannréttindum, þegar hið rétta er að það eru almennir borgarar í Bandaríkjunum sem hafa lengi lagt mest af mörkum í þeim efnum. Utanríkisstefna vinstri-grænna er í besta falli einangrunarstefna og í versta falli sjálfsvígsárás. Þeir virðast ekki vilja gera neinar ráðstafanir til að verja land og þjóð, og reyna hvað þeir geta til að hrekja Íslendinga úr NATO."

Þessi ummæli eiga vel við um grein Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns vinstri-grænna, í 24 stundum í dag undir yfirskriftinni Vígvæðing í fjárlögum?


Vinstri-grænir og hryðjuverkamennirnir

Utanríkisráðherra gekk nýlega til liðs við Íslandsdeild Amnesty International, en þessi góðkunnu mannréttindasamtök berjast nú meðal annars gegn meintum pyntingum og illri meðferð í stríðinu gegn hryðjuverkum, sjá: http://www.amnesty.is/forsidugreinar/Pyndingar

Auk utanríkisráðherra eiga hryðjuverkamenn fleiri málsvara, meðal annars á Alþingi, sérstaklega þingmenn vinstri-grænna. Barátta vinstri-grænna fyrir réttindum hryðjuverkamanna var þegar hafin í júlí 2004. Í yfirlýsingu á heimasíðu framboðsins frá þeim tíma segir:

"Þverpólitísk samstaða hefur myndast að baki kröfu á hendur ríkisstjórninni að beita sér gegn mannréttindabrotum í bandaríska herfangelsinu við Guantanamo flóa."

Þá er þar birt áskorun sem ASÍ og BSRB, launþegasamtökin, og fleiri undirrituðu og afhentu þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra. Vinstri-grænir létu þó ekki þar við sitja og stendur barátta þeirra enn þann dag í dag. Þann 10. október síðastliðinn lögðu þeir fram svohljóðandi tillögu til þingsályktunar:

"Alþingi fordæmir ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þeim verði lokað." http://www.althingi.is/altext/135/s/0107.html

Þá mun RÚV líka vekja athygli á þessum málum næsta föstudagskvöld, en þá sýnir það bíómyndina Leiðin til Guantanamo.

Nú eru allnokkrar líkur á að fangelsinu á Guantanamo verði lokað, ekki síst vegna alþjóðlegs þrýstings. Barátta Amnesty, vinstri-grænna, íslenskra launþegasamtaka, RÚV og fleiri kann því að bera árangur.

En hvert er þá raunverulegt hlutskipti fanganna í Guantanamo?

Í raun þá virðast þeir njóta réttinda sem velflestir glæpamenn eða handsamaðir stríðsmenn myndu ekki kvarta vegna.

Tökum dæmi af Salim Ahmed Hamdan, sem vann sér það til óhelgi að vera bílstjóri Osama bin Laden bæði fyrir og eftir árásirnar 11. september 2001. Hann var gripinn í Afghanistan og færður til Guantanamo. Hann var sakaður um aðild að hryðjuverkasamsæri al-kaída. Þessvegna átti að færa hann fyrir herrétt 2004. Hamdan undi því ekki og taldi bæði dómstólinn og ákæruna ólöglega, og lögsótti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, forsetann og fleiri.

Dómur féll honum í vil í undirrétti í Bandaríkjunum. Þá áfrýjuðu stjórnvöld og höfðu sigur gegn Hamdan fyrir áfrýjunardómstól. Að lokum var það þó Hamdan sem vann þegar hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði honum í vil 29. júní 2006 í 185 blaðsíðna dómsorði. Hamdan naut aðstoðar úrvals lögfræðinga.

Í ljósi þessa er óhætt að álykta að íslensk mannréttinda- og launþegasamtök, og vinstri-grænir ættu frekar að beina gagnrýnum augum sínum að ástandinu í fangelsum og meðferðarstofnunum hérlendis.

Hryðjuverkamenn eiga greinilega sterkari bakhjarla en ólánsfólk almennt þegar kemur að því að virða og verja réttindi.


Vítisenglar og fangaflug

Skilningsleysi í garð lögreglunnar endurspeglast víða hérlendis. Þannig eru margir þegar búnir að taka upp hanskann fyrir vítisengla eftir að lögreglan sneri þeim úr landi um helgina. Fólk sem ekki hefur upplýsingar sem lögreglan hefur um vítisenglana, og hefur að því er virðist ekki einu sinni kynnt sér opinberar upplýsingar um morðöldur í bardögum mótorhjólagengja á norðurlöndum, mótmælti.

Í stað þess að þakka lögreglunni einfaldlega fyrir vasklega unnið starf er leitað logandi ljósi í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum að greinum sem mætti vitna í vítisenglum til varnar.

Sama viðhorf er uppá teningnum gagnvart stríðinu gegn hryðjuverkum. Almenningur krafðist viðbragða þegar ráðist var á Bandaríkin 11. september 2001. Bandaríkjamenn fengu þá vernd sem NATO sáttmálinn tryggir öllum bandamönnum. NATO réðist til atlögu við al-kaída í Afghanistan og hina alræmdu stjórn Talibana, sem skaut skjólshúsi yfir hryðjuverkasamtökin og var auk þess alkunn fyrir að kúga konur í samræmi við strangar bókstafstrúarkenningar.

Baráttan við ofsatrúarmenn geisar enn víða um heim og útlit fyrir að stríðið verði langvinnt. Vegna stríðsins hafa bandarísk stjórnvöld tekið ákvarðanir sem oft eru gagnrýndar, líka á heimavelli, til dæmis Bandaríkjaþingi. Þannig er um meðferð fanga og fangaflugið svokallaða. Þar hefur verið brugðist við réttmætri gagnrýni á ákvarðanir sem voru teknar í hita leiksins eftir 9-11 árásirnar. Réttindi fanganna í stríðinu gegn hryðjuverkum hafa verið sérstaklega til skoðunar og þróunin verið í þá átt að æ strangari skorður eru reistar til að tryggja réttindi þeirra. Það geta fangarnir þakkað sterkri lýðræðishefð sem tryggir skoðanaskipti um hlutskipti þeirra, auk ákvæða í bandarísku stjórnarskránni og hinum ýmsu sáttmálum.

Skilningsleysi margra hér á nauðsyn þess að koma hryðjuverkamönnum úr umferð kom berlega í ljós í útbreiddum fögnuði þegar utanríkisráðherra Íslands kvaðst á dögunum ætla að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn yrðu fluttir frá einum stað til annars, þegar tilkynnt var að reynt yrði að leita í þeim fangaflugvélum sem lenda hér.

Væri ekki nær að krefjast þess að lögreglan verði efld og að bandamönnum okkar verði boðin frekari aðstoð í stríðinu gegn hryðjuverkum.

 


mbl.is Lögregluaðgerðum vegna komu Vítisengla til landsins lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Al-Aqsa hótar Dönum

Í tilefni af því að Al-Aqsa samtökin hóta Dönum nú blóðsúthellingum, enn vegna teikninga af Múhameð spámanni, er ekki úr vegi að rifja upp nokkur hryðjuverk þeirra.

2. mars 2002:  11 fórust í sjálfsmorðsáras Al-Aqsa í Jerúsalem.

5. janúar 2003:  22 fórust í sjálfsmorðsárás Al-Aqsa á strætóbiðstöð í Tel Aviv.

29. janúar 2004: 11 fórust í árás Al-Aqsa á strætisvagn í Jerúsalem.

30. janúar 2006:  Tóku þátt í vopnaðri árás á Gaza skrifstofur Evrópusambandsins.  Aðgerðin var hugsuð sem mótmæli vegna teikninga Jótlandspóstsins af Múhameð spámanni.

Þessi listi er alls ekki tæmandi, en gefur mynd af þessum félagsskap, Al-Aqsa, sem nú teygir sig til áhrifa í Danmörku.

Þá er vert að geta þess að samtökin virðast sækja stuðning og hugmyndir til Írans.  Þannig lýstu þau sérstakri ánægju með yfirlýsingar Ahmadinejads Íransforseta þess efnis að Ísrael skyldi eytt.  Það er leitt að hin friðsömu norðurlönd skuli nú þurfa að búa við yfirgang öfgasinnaðra ofsatrúarmanna, eins og Ísraelar hafa gert svo lengi.


mbl.is Múhameðsteikning notuð í dönsku kosningabaráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangaflug Bandaríkjamanna

Það er eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar gagnrýni Bandaríkjamenn þegar þeim sýnist sem þeim séu mislagðar hendur í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum.  Það er hluti hinnar lýðræðislegu umræðu sem hefur skapast um hin nýju verkefni sem vestrænar þjóðir standa andspænis eftir árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001.  Umræðan fer þó stundum í þann farveg hérlendis að Bandaríkjamenn eru sakaðir um illsku, óheilindi og jafnvel mannréttindabrot algjörlega að tilefnislausu.  Þannig hafa utanríkisráðherra, stjórnmálamenn og blaðamenn haft í frammi stóryrði um  svokallað fangaflug Bandaríkjamanna og kallað það gróf mannréttindabrot.  Þessi málflutningur er þó ekki studdur rökum eða staðreyndum, þótt stundum megi þar finna óljósar tilvísanir í afar ónákvæma skýrslu Evrópuþingsins um þetta efni. 

Það er rétt að hafa það í huga þegar Bandaríkjamenn og CIA eru sökuð um pyntingar, að CIA er gert að hlýða lögum eins og öðrum bandarískum borgurum.  Aðgerðir á þeirra vegum eru reglulega til skoðunar hjá Bandaríkjaþingi, meðal annars svo tryggt sé að lögum sé framfylgt.  Það er því ekki fótur fyrir gagnrýni þess efnis að aðilar á vegum bandarískra stjórnvalda stundi pyntingar, enda eru bandarísk lög skýr í þessum efnum og hafa alltaf verið, auk þess sem stjórnvöld þar eru og telja sig í þessum málum bundin af sáttmálum um meðferð stríðsfanga. 

Engu að síður er það svo að jafnvel skynsamt og rökvíst fólk hefur athugasemdir við margt í stefnunni í stríðinu gegn hryðjuverkum, þar með talið fangaflugið.  Þetta er mjög til umræðu á Bandaríkjaþingi, þar sem harðar gagnrýnisraddir heyrast.  Þetta er hluti umræðunnar um stefnuna í stríðinu gegn hryðjuverkum, en á ekkert skylt við furðulega umræðu hérlendis þar sem réttur Bandaríkjamanna og annarra vesturlanda til að verjast hryðjuverkamönnum virðist dreginn í efa.  Það er umræða sem okkur Íslendingum ber að forðast.  Hinsvegar er mikilvægt að við tökum þátt í hinni raunverulegu lýðræðislegu umræðu þar sem stefnan í stríðinu gegn hryðjuverkum er mótuð.  Þar er eðlilegt að deilt sé til dæmis um Guantanamo fangabúðirnar, og ekki nema eðlilegt að margir haldi á lofti rétti fanganna þar til málsmeðferðar sambærilegrar við þá sem tíðkast almennt um fanga stjórnvalda á vesturlöndum.  Það er ljóst að rök hers og leyniþjónustu sem segjast halda föngum til að afla upplýsinga þurfa að vega þungt ef hvika á frá aldagömlum hefðum í þessum efnum.  Þetta eru hlutir sem nú eru mjög til umræðu í Bandaríkjunum og þróunin þar hefur heldur verið á þann veginn að reistar hafa verið skorður til að tryggja réttindi fanganna. Það er í sjálfu sér ekki hægt að amast við því að utanríkisráðherra gagnrýni fangaflugið, en ekki rétt að gera það með órökstuddum gífuryrðum um pyntingar og mannréttindabrot.  Íslendingar hafa jú líka hagsmuna að gæta þegar hryðjuverkamenn eru teknir úr umferð, og hafa væntanlega ekki mikið við það að athuga eitt og sér. 

Þá er leiðinlegt að sjá það, meira að segja í leiðara Morgunblaðsins, að hérlendis telji einhverjir að Bandaríkjamenn hafi hvikað í baráttu sinni fyrir lýðræði og mannréttindum og að þeir hafi beðið eitthvert siðferðilegt skipbrot eftir að kommúnisminn leið undir lok.  Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að fólk sem man vel eftir kaldastríðsárunum skuli enn standa vörð um grundvallargildi vestræns lýðræðis, en rétt að benda á að baráttan við hryðjuverk er allt annars eðlis en kalda stríðið.  Michael V. Hayden forstjóri CIA hefur meðal annars lýst breytingunni þannig að í kalda stríðinu hafi öflug vopn og skotþungi skipt mestu.  Auðvelt var að finna ógnina en erfitt að granda henni.  Nú hefur dæmið snúist við: það er mjög erfitt að finna óvininn en auðvelt að granda honum þegar hann loks finnst.  Í hryðjuverkastríðinu, sem búast má við að verði langvinnt, skipta upplýsingar því miklu.  Það hefur einnig komið fram í máli forstjóra CIA að upplýsingar sem hefur verið aflað í gegnum fangaflugið hafi reynst afar veigamiklar.  Þetta eru þeir hagsmunir sem togast á: annarsvegar nauðsyn þess að afla upplýsinga sem gætu bjargað mannslífum, og hinsvegar réttindi fanganna.  Eins og hér hefur komið fram telja bandarísk yfirvöld að hagsmunir fanganna séu ekki fyrir borð bornir.  Ef íslensk stjórnvöld eru annarrar skoðunar er það réttur almennings að þau ræði það opinberlega og leggi þá fram gögn máli sínu til stuðnings.

Í reynd þá flytur CIA sjaldan fanga í flugvélum sínum, en þeim mun oftar ráðgjafa, gögn eða tæki til eða frá bandamönnum.  Í því ljósi eru tilraunir til að gera allar ferðir þeirra tortryggilegar undarlegar.  Það hefur verið upplýst að síðan að stríðið hófst hafa kannski 20 til 40 fangar verið fluttir á þennan hátt, enda er aðgerðum sem þessum aðeins beint gegn fólki sem full ástæða er til að ætla að búi yfir vitneskju um yfirvofandi hryðjuverk.  Það er vert að hafa allt þetta í huga þegar gagnrýni íslenskra stjórnvalda á fangaflugið er metið, og eins hitt að það er nauðsynlegt að það ríki samstaða meðal vesturlanda í stríðinu gegn hryðjuverkum, sérstaklega nú þegar þarf að beita herskáa klerkastjórnina í Íran þrýstingi.


Um bloggið

net

Höfundur

net
net
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband