30.10.2007 | 01:11
Fangaflug Bandaríkjamanna
Það er eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar gagnrýni Bandaríkjamenn þegar þeim sýnist sem þeim séu mislagðar hendur í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum. Það er hluti hinnar lýðræðislegu umræðu sem hefur skapast um hin nýju verkefni sem vestrænar þjóðir standa andspænis eftir árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001. Umræðan fer þó stundum í þann farveg hérlendis að Bandaríkjamenn eru sakaðir um illsku, óheilindi og jafnvel mannréttindabrot algjörlega að tilefnislausu. Þannig hafa utanríkisráðherra, stjórnmálamenn og blaðamenn haft í frammi stóryrði um svokallað fangaflug Bandaríkjamanna og kallað það gróf mannréttindabrot. Þessi málflutningur er þó ekki studdur rökum eða staðreyndum, þótt stundum megi þar finna óljósar tilvísanir í afar ónákvæma skýrslu Evrópuþingsins um þetta efni.
Það er rétt að hafa það í huga þegar Bandaríkjamenn og CIA eru sökuð um pyntingar, að CIA er gert að hlýða lögum eins og öðrum bandarískum borgurum. Aðgerðir á þeirra vegum eru reglulega til skoðunar hjá Bandaríkjaþingi, meðal annars svo tryggt sé að lögum sé framfylgt. Það er því ekki fótur fyrir gagnrýni þess efnis að aðilar á vegum bandarískra stjórnvalda stundi pyntingar, enda eru bandarísk lög skýr í þessum efnum og hafa alltaf verið, auk þess sem stjórnvöld þar eru og telja sig í þessum málum bundin af sáttmálum um meðferð stríðsfanga.
Engu að síður er það svo að jafnvel skynsamt og rökvíst fólk hefur athugasemdir við margt í stefnunni í stríðinu gegn hryðjuverkum, þar með talið fangaflugið. Þetta er mjög til umræðu á Bandaríkjaþingi, þar sem harðar gagnrýnisraddir heyrast. Þetta er hluti umræðunnar um stefnuna í stríðinu gegn hryðjuverkum, en á ekkert skylt við furðulega umræðu hérlendis þar sem réttur Bandaríkjamanna og annarra vesturlanda til að verjast hryðjuverkamönnum virðist dreginn í efa. Það er umræða sem okkur Íslendingum ber að forðast. Hinsvegar er mikilvægt að við tökum þátt í hinni raunverulegu lýðræðislegu umræðu þar sem stefnan í stríðinu gegn hryðjuverkum er mótuð. Þar er eðlilegt að deilt sé til dæmis um Guantanamo fangabúðirnar, og ekki nema eðlilegt að margir haldi á lofti rétti fanganna þar til málsmeðferðar sambærilegrar við þá sem tíðkast almennt um fanga stjórnvalda á vesturlöndum. Það er ljóst að rök hers og leyniþjónustu sem segjast halda föngum til að afla upplýsinga þurfa að vega þungt ef hvika á frá aldagömlum hefðum í þessum efnum. Þetta eru hlutir sem nú eru mjög til umræðu í Bandaríkjunum og þróunin þar hefur heldur verið á þann veginn að reistar hafa verið skorður til að tryggja réttindi fanganna. Það er í sjálfu sér ekki hægt að amast við því að utanríkisráðherra gagnrýni fangaflugið, en ekki rétt að gera það með órökstuddum gífuryrðum um pyntingar og mannréttindabrot. Íslendingar hafa jú líka hagsmuna að gæta þegar hryðjuverkamenn eru teknir úr umferð, og hafa væntanlega ekki mikið við það að athuga eitt og sér.
Þá er leiðinlegt að sjá það, meira að segja í leiðara Morgunblaðsins, að hérlendis telji einhverjir að Bandaríkjamenn hafi hvikað í baráttu sinni fyrir lýðræði og mannréttindum og að þeir hafi beðið eitthvert siðferðilegt skipbrot eftir að kommúnisminn leið undir lok. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að fólk sem man vel eftir kaldastríðsárunum skuli enn standa vörð um grundvallargildi vestræns lýðræðis, en rétt að benda á að baráttan við hryðjuverk er allt annars eðlis en kalda stríðið. Michael V. Hayden forstjóri CIA hefur meðal annars lýst breytingunni þannig að í kalda stríðinu hafi öflug vopn og skotþungi skipt mestu. Auðvelt var að finna ógnina en erfitt að granda henni. Nú hefur dæmið snúist við: það er mjög erfitt að finna óvininn en auðvelt að granda honum þegar hann loks finnst. Í hryðjuverkastríðinu, sem búast má við að verði langvinnt, skipta upplýsingar því miklu. Það hefur einnig komið fram í máli forstjóra CIA að upplýsingar sem hefur verið aflað í gegnum fangaflugið hafi reynst afar veigamiklar. Þetta eru þeir hagsmunir sem togast á: annarsvegar nauðsyn þess að afla upplýsinga sem gætu bjargað mannslífum, og hinsvegar réttindi fanganna. Eins og hér hefur komið fram telja bandarísk yfirvöld að hagsmunir fanganna séu ekki fyrir borð bornir. Ef íslensk stjórnvöld eru annarrar skoðunar er það réttur almennings að þau ræði það opinberlega og leggi þá fram gögn máli sínu til stuðnings.
Í reynd þá flytur CIA sjaldan fanga í flugvélum sínum, en þeim mun oftar ráðgjafa, gögn eða tæki til eða frá bandamönnum. Í því ljósi eru tilraunir til að gera allar ferðir þeirra tortryggilegar undarlegar. Það hefur verið upplýst að síðan að stríðið hófst hafa kannski 20 til 40 fangar verið fluttir á þennan hátt, enda er aðgerðum sem þessum aðeins beint gegn fólki sem full ástæða er til að ætla að búi yfir vitneskju um yfirvofandi hryðjuverk. Það er vert að hafa allt þetta í huga þegar gagnrýni íslenskra stjórnvalda á fangaflugið er metið, og eins hitt að það er nauðsynlegt að það ríki samstaða meðal vesturlanda í stríðinu gegn hryðjuverkum, sérstaklega nú þegar þarf að beita herskáa klerkastjórnina í Íran þrýstingi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:05 | Facebook
Um bloggið
net
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.